Um bókina

Af einstakri einlægni og ósérhlífni opnar knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen sig upp á gátt og segir hér frá átakanlegri baráttu sinni við matarfíkn, sem hún hefur glímt við um árabil meðfram því að stunda íþrótt sína af kappi hér heima og erlendis. 

Lára hafði reynt að leita sér hjálpar víða en öll sund virtust lokuð hvert sem hún leit. Henni leið eins og hún dveldi ein neðanjarðar, í moldinni, myrkrið alltumlykjandi og engin undankomuleið. Umræðan um matarfíkn virtist ekki fyrirfinnast og úrræðin enn síður, ekki síst fyrir unga konu í íþróttum sem sjálf þurfti að yfirstíga skömmina og átta sig á rót vandans - fíkninni.

Með Verunni í moldinni ljær Lára baráttunni við matarfíkn mikilvæga og dýrmæta rödd. Lesendur skyggnast inn í hugarheim matarfíkils þar sem Lára skrifar í dagbókarformi um leit sína að bata, vöxtinn sem fylgdi í kjölfarið, föllin sem geta fylgt sjúkdómnum og hvernig unnt er að blómstra þrátt fyrir að glíma við fíknisjúkdóm.

Um höfundinn

  • Lára Kristín Pederson
  • Lára Kristín Pedersen er fædd árið 1994 og er úr Mosfellsbæ. 

    Samhliða því að einbeita sér að bataferli matarfíknar stundar Lára nú nám í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri ásamt því að leika knattspyrnu með Val. Lára hefur einnig unnið sem ráðgjafi á geðdeild, sinnt íslenskukennslu á unglingastigi og keyrt leigubíl.

    Veran í moldinni er hennar fyrsta bók.

  • Þorgrímur Þráinsson

    Beinskeitt frásögn Láru um fíknina og glímuna við lífið er í senn átakanleg og heillandi, ekki síst vegna þess hversu gott vald hún hefur á móðurmálinu.

  • Hulda G. Geirsdóttir

    Einlæg, hrá, dimm, en líka falleg og upplýsandi. Virkilega vel skrifuð og lýsir átakanlegri baráttu knattspyrnukonu í fremstu röð við matarfíkn, sjúkdóm sem kerfið viðurkennir ekki.

  • Máni Pétursson

    Veran í moldinni er einstök bók. Höfundur er svo óþægilega heiðarlegur að maður lendir í því að horfast í augu við sjálfan sig í gegnum allan lesturinn.

  • Ingileif Friðriksdóttir

    Algjörlega mögnuð bók! Virkilega áhrifarík og einlæg frásögn sem er allt í senn átakanleg, sorgleg, falleg og hjartnæm. Lára afhjúpar sig á aðdáunarverðan hátt, sem mun án vafa hjálpa fólki í sömu sporum og öðrum sem ekki þekkja til við að skilja sjúkdóminn. Einstaklega vel skrifuð bók sem fær fimm stjörnur frá mér.